Myndbönd: Sterkari Golfsveifla með Bjarka

Steypustöðin gerði á dögunum styrktarsamning við einn besta kylfing landsins Bjarka Pétursson. Bjarki hefur verið meðal fremstu kylfinga landsins en hann fagnaði íslandsmeistatitlinum í golfi árið 2020. Bjarki er nú með takmarkaðan keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour, sem er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu á eftir sjálfri DP Evrópumótaröðinni.

Í sumar ætlar Bjarki í samstarfi við Steypustöðina að vera með golf tips þar sem farið er m.a. yfir grip, sveiflu, boltastöðu og fleira fróðlegt fyrir golfþyrsta íslendinga. Myndböndin eru stutt og hnitmiðuð til að hjálpa þér á vellinum í sumar.

1. Gripið

2. Boltastaðan

3. Líkamsstaðan

4. Sveiflan

5. Sandurinn

6. Vippið

7. Púttsveiflan

8. Púttæfing 1#

9. Púttæfing 2#

 

Hvernig verður steypa sjálfbær?

Á fræðslusvæði Steypustöðvarinnar er fjallað um ýmislegt tengt Steypu skrifaða af sérfræðingum okkar á rannsóknarstofu Steypustöðvarinnar. Greinin fjallar um hvernig Steypa getur orðið sjálfbær, hver munurinn er á sjálfbærri steypu og umhverfisvænni steypu og hvaða þættir þurfa að ganga upp svo að steypa sé sjálfbær kostur í barráttunni við loftlagsmálin.

Hvað er sjálfbærni?


Sjálfbærni byggir á þrem grunnstoðum sem Brundtland nefnd Sameinuðu þjóðanna skilgreindi í skýrslu sinni árið 1987 sem samfélag, náttúra og efnahagur. Í skýrslunni er sjálfbærni skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Sjálfbærni er skilningur á því að samfélag og efnahagur eru hluti af lokuðu kerfi sem getur ekki farið út fyrir þau mörk sem náttúran setur, auðlindir eru takmarkaðar og auðvelt er að raska ferlum náttúrunnar.
Til þess að vara, framleiðsla eða hverskyns rekstur geti talist sjálfbær þarf að uppfylla alla þrjá flokkana, vara getur til dæmis ekki talist sjálfbær þótt að hún sé umhverfisvæn en mjög kostnaðarsöm.

 

Hvers vegna?


Sementsframleiðsla ber ábyrgð á um 8% af þeim gróðurhúsalofttegundum sem mannkynið losar og því er mjög mikilvægt að finna hagkvæmar og sjálfbærar lausnir við framleiðslu á sementi en einnig á þeim vörum sem framleiddar eru og innihalda sement. Sementsframleiðsla og steypuframleiðsla eru að sjálfsögðu nátengd en steypa er næst mest notaða hráefni á jörðinni á eftir vatni. Sement er því vara sem telst ómissandi og ekki er til nein vara sem hægt er að nota til að skipta sementi alfarið út.

Efnahagur og samfélag flestra vestrænna ríkja er mjög háður sementsframleiðslu þar sem byggingargeirinn spilar yfirleitt mjög stórt hlutverk í keðju hagkerfisins, bæði beint með störfum í byggingariðnaði en einnig eru afleidd störf gríðarlega mörg og fjölbreytt.

Sements og steypuframleiðsla getur haft mikil áhrif á getu samfélagsins til þess að uppfylla Parísarsáttmálann en þar er stefnan sett á að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C. Til þess að ná þessu markmiði þarf að draga úr útblæstri á gróðurhúsalofttegundum. Einnig getur sements og steypuframleiðsla spilað stóran þátt fyrir Ísland til að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

 

Hvernig gerum við steypu sjálfbæra?


En hvernig er hægt að gera steypu sjálfbæra, nokkrar leiðir eru færar til þess að minnka kolefnisfótspor steypu, gera hana hagkvæmari og einnig til að gera hana betri fyrir samfélagið.

Umhverfisáhrif

  • 1. Einfaldasta leiðin er einfaldlega að nota minna sement við steypuframleiðslu. Þetta er skref sem þarf að taka við hönnun á mannvirkjum en oft er fyrirskrifað hversu mikið magn sements á að nota í byggingar og er það í mörgum tilfellum mun meira en þörf er á.
  • 2. Einnig er hægt að skipta út hluta sements fyrir íauka eins og til dæmis flugösku, basaltmélu, brennt gjall (GGBS) og fleira sem hefur lægra kolefnisspor en sement.
  • 3. Önnur leið, sem þó getur farið saman með fyrrnefndum aðferðum er að nota steypu sem endist lengur. Við það lengist líftími bygginga og því þarf á endanum að nota minni steypu en ella. 4.
  • 4. Hægt er að nota endurunnin efni við steypuframleiðslu og hefur Steypustöðin til dæmis notast við endurvinnsluvatn í framleiðslu sína um árabil. Einnig er hægt að nota steypu sem hefur verið brotin niður og hörpuð í réttar stærðir í stað fyrir hefðbundin steinefni.
  • 5. Að lokum er svo hægt að minnka losun við framleiðsluna sjálfa. Er þá til dæmis hægt að nota vélar og tæki sem menga minna, hrærivélar sem þurfa minni orku og minnka úrgang frá framleiðslu.

 

Samfélagsleg áhrif

  • 1. Hanna byggingar og mannvirki sem hægt er að endurnýja seinna meir.
  • 2. Reisa byggingar sem hafa lengri líftíma, ein bygging sem stendur í 50 ár veldur töluvert minni mengun en tvær byggingar sem standa í 25 ár.
  • 3. Fallegar byggingar setja mark sitt á umhverfið og geta haft góð samfélagsleg áhrif.

 

Efnahagsleg áhrif

  • 1. Gera þarf kostnaðargreiningu fyrir allan líftíma byggingarinnar. Hvað kostar að reisa mannvirkið, reka það og að lokum rífa það.

 

Vöruval sem minnkar kolefnisspor


Það er að mörgu að huga þegar kemur að því að gera steypu umhverfisvænni og sjálfbærari. Steypustöðin hefur tekið virkan þátt í þessu verkefni sem á við um alla sem koma að byggingum mannvirkja.

 

Í dag býður Steypustöðin upp á þrjár lausnir til að draga úr kolefnisspori steypu strax í dag:

  • 1. Steypu með 30% minna kolefnisspori (Grænsterk steypa)
  • 2. Snjallsteypu sem dregur úr sementsnotkun (Snjallnemar)
  • 3. Endurvinnsla á steypu

 

Við getum tekið þá ákvörðun strax í dag að velja umhverfisvænni kostinn hjá Steypustöðinni.

Í stærri verkefnum erum við með sérfræðinga á okkar snærum svo virðiskeðjan frá byggingaraðilum til arkitekta, verkfræðinga og verktaka verði eins sjálfbær og kostur er. Þannig náum við í sameiningu enn lengra í átt að því að byggja sjálfbært úr steinsteypu.

Hér getur þú nálgast Samfélagsskýrslu Steypustöðvarinnar 2021 til að skoða áherslur okkar og markmið í sjálfbærnimálum.

Höfundur greinar er Andri Jón Sigurbjörnsson jarðfræðingur og sérfræðingur á rannsóknarstofu Steypustöðvarinnar.

10 grunnreglur við hellulögn

Vel hellulögð innkeyrsla eða garður gerir gæfumuninn þegar litið er til útlits og endingar til lengri tíma. Einn af kostum þess að nota hellur er að þær þarfnast lítils viðhalds og eru í senn frábær lausn sem á að endast í áraraðir. En þegar við ráðumst í þetta verkefni með tilheyrandi fjárfestingu viljum við einmitt að þetta endist í áraraðir og þá þarf að fara rétt að.

Eftir áralanga reynslu í framleiðslu á hellum, kantsteinum og veggjum höfum við séð ýmislegt. Ef rangt er farið að með undirlagið geta hellurnar orðið ójafnar, þær brotnað, jarðvegur byrjar að síga og þær geta losnað. Sumt sést ekki frá fyrsta degi hellulagnar og allt virðist líta vel út, en með tímanum byrja þessar undirstöður að gefa sig ef ekki er rétt farið að.

Til þess að tryggja endingargóða hellulögn úr steinsteyptum hellum erum við hér með 10 grunnreglur við hellulögn ásamt skýringarmyndum.


 

1. Fylgja skal öllum eftirfarandi reglum um niðurlögn

Til að tryggja endingargóða hellulögn úr steinsteyptum hellum þarf nægjanlega þykkt og þjappað, frostfrítt burðarlag og 3 – 5 cm laust sandlag (mesta kornastærð 8 mm) til að leggja hellurnar í.

Hér finnur þú hlekk á:
Frostfrítt burðarlag
Laust sandlag – Brotinn Sandur 0-8mm
Laust sandlag – Hellusandur 0-8mm

 

2. Hellulögn og burðarlag þurfa að hafa að minnsta kosti 2,5 % halla

Sami vatnshalli þarf að vera á burðarlagi og á hellulögninni. Gætið þess að vatnshallinn sé a.m.k. 2,5% og frávik frá sléttu yfirborði sé ekki meira en 1 cm á 4 m.

 

3. Slétt og rétt uppbyggt burðarlag úr frostfríu efni

Þjappið burðarlagið og lagfærið yfirborðið þannig að það sé slétt og í réttri hæð. Yfirborð burðarlagsins þarf að vera svo þétt í sér að lausa sandlagið, undirlagið sem hellurnar eru lagðar í, sáldrist ekki niður í það. Snjóbræðsla í hellulögn á að vera í burðarlaginu, 15 cm fyrir neðan yfirborð hellulagnar.

 

4. Laust undirlag

Þegar burðarlagið er tilbúið, skal leggja undirlagið.
– Undirlagið verður að vera 3 – 5 cm þykkt eftir þjöppun. Hellur og steina skal leggja á þetta óþjappaða, útdregna sandlag. Þetta gildir fyrir allar þykktir af steinum og hellum.
– Undirlagið verður að passa við burðarlagið og fúguefnið sem er notað. Það má hvorki sáldrast niður í burðarlagið né fúguefnið niður í undirlagið.

– Undirlagið, þ.e. lausa sandlagið, þjappast eftir að hellur/ steinar hafa verið lagðar/ir.
– Nauðsynlegt er að vatn geti lekið niður úr undirlaginu. Einnig að fínna efni geti ekki gengið ofan í grófara efni í laginu fyrir neðan, burðargeta sé tryggð og þjöppun sé nægjanleg.

 

5. Kantur

Gott er að miða við hellurnar/steinana sem á að nota til þess að ákvarða staðsetningu kantsteina. Þú getur skoðað úrval kantsteina hjá Steypustöðinni hér. Það er gert þannig að áður en niðurlögnin hefst eru, með hæfilegu millibili, lagðar hellur/steinar í þá breidd sem á að helluleggja. Sumar tegundir kantsteina þurfa undirstöður og styrkingu úr steinsteypu.

 

6. Skoða skal hellurnar vel áður en þær eru lagðar

Berið saman afhendingarseðil og pöntunarseðil (form, lit, yfirborð, magn o.s.frv.). Hafið samband við Steypustöðina ef ósamræmis gætir áður en hellulögn hefst. Smávægilegar kalkútfellingar geta verið á steininum en þær má auðveldlega hreinsa af með mildri sýrulausn.

 

7. Leggja skal hellurnar með 3-5 mm fúgum og blanda saman úr mismunandi pakkningum

Fjarlægðarrendurnar sem eru á steinunum eiga ekki að ákvarða fúgubreiddina. Fúgan
á milli steinanna á að vera 3 – 5 mm. Færið hellurnar/steinana aðeinstil ef jafna þarf
bilið milli þeirra. Steinsteypa er framleidd úr náttúrulegum efnum, þar af leiðandi getur verið blæbrigðamunur á lit og áferð. Þess vegna þarf að blanda saman hellum/steinum úr mismunandi pakkningum til þess að jafna út hugsanlegan lita-/áferðarmismun. Sagið til hellur / steina, ekki brjóta. Ekki hafa hellur / steina minni en sem nemur hálfri upphaflegri stærð.

 

8. Fúga með sértilgerðum sandi

Fúguefninu, 0-2 mm sem selt er hjá Steypustöðinni í 15 kg. pokum, er sópað ofan
í fúgurnar. Þetta er sérstaklega hannaður fúgusandur fyrir hellulögn og hefur reynst mjög vel. Hann er fáanlegur í gráum og sótgráum lit.

Sótgrá fúga fyrir hellur Grá fúga fyrir hellur

Erfitt er að segja til um hvaða magn þarf á fermetra en ágætis viðmið er að 15kg poki dugi á 3-10 fermetra. Þessi mikli munur fer eftir fjölda fúga sem fylla þarf í. Fyrir minni hellur þarf meira af fúgusandi en þegar um stærri hellur er að ræða.

Nánari upplýsingar um Fúgusandinn má finna hér

Þessi sandur er með stærstu kornastærð 2 mm sem er minni en fúgubreiddin en þó ekki svo fínn að fúguefnið hverfi ofan í undirlagið. Best er að fylla fúgurnar jafnóðum og hellurnar/steinar eru lagðar/ir. Með þessari aðferð komum við í veg fyrir óæskilegan gróður og skrið á lögninni. Ef vitlaust efni er notað í fúgur getur komið smit frá efninu í hellurnar – sem lýsir sér eins og brún sleikja.

 

9. Þjöppun eftir hellulögn og fúgun

Þjappa þarf lögnina og nota þarf þar til gerða plötu sem hlífir yfirborðinu. Umframefni á að fjarlægja áður en þjappað er yfir hellurnar. Mælt er með að nota ekki aflmeiri þjöppu en 120 kg.

 

10. Fylla fúgur endanlega

Eftir að þjappað hefur verið yfir hellulögnina þarf að fylla fúgurnar aftur eftir þjöppun með fúgusandinum. Nauðsynlegt er að fylla þær stöku sinnum með sandi. Það er hluti af reglulegri hreinsun og viðhaldi. Með því að sópa í fúgurnar árlega eftir hellulögn kemur þú í veg fyrir að lífrænn jarðvegur eins og lauf, gras og greinar nái að byggja upp aðstæður fyrir spírandi fræ og þá mun hellulögnin endast ævilangt.

Samfélagsskýrsla Steypustöðvarinnar 2021

Okkur er annt um umhverfið og samfélagið okkar – við viljum því á gagnsæjan hátt sýna það í verki hvað við erum að gera. Fyrsta samfélagsskýrsla Steypustöðvarinnar er nú loks komin út og það er ótrúlega stórt skref fyrir okkur þar sem við höfum tekið sjálfbærnivegferð okkar föstum tökum.

Að draga úr kolefnisspori með beinum aðgerðum og mótvægisaðgerðum er mikilvægt framfaraskref fyrir þennan iðnað. Það skiptir máli að gera allt sem hægt er að gera strax í dag; flokka sorp, endurvinna, draga úr sóun, draga úr losun á farartækjum, velja sjálfbærari kosti, styðja við samfélagið og vera skilvirk.

Skoða skýrsluna í heild hér 

 

Við höfum dregið saman helstu atriðin hér, en alla skýrsluna er að finna hér.

 

 

 

 

 

 

 

Skýrsluna í heild sinni má lesa hér:

Hvað kostar innkeyrsla?

Eftir langan dag í vinnunni og bið í umferðarsúpu á leiðinni heim, er ekkert notalegra en að koma að snyrtilegu húsinu með fallega útfærðri heimkeyrslu og aðkomu að útidyrum sem tekur vel á móti bæði íbúum og gestum. Bílnum er rennt ljúflega inn á hellulagt og snyrtilegt bílaplanið þar sem honum er stungið í samband við hleðslustöðina. Frá bílaplaninu er gegnið inn á rúmgott svæði við útidyrnar með húsgögnum og blómpottum sem litrík sumarblóm flæða út úr. Ef hlýtt er í veðri má setjast niður og taka nokkrar mínútur í núvitund áður en farið er inn í húsið til að takast á við amstur síðdegisins. En, hvað þarf til að gera þessa mynd að raunveruleika?

Hvernig á ég að undirbúa?

Fyrsta skrefið er alltaf að safna saman eins miklum upplýsingum og hægt er. Á teikningum arkitekts eru bílastæði og aðkoma húss gjarnan staðsett. Flestum húsum fylgja kvaðir um fjölda bílastæða og tekur arkitektateikningin tillit til þess. Með þessum upplýsingum má ákveða hvar hellulagnir eru staðsettar. Steypustöðin er með mikið úrval af hellum og garðlausnum t.d. kantsteina fyrir gróðurbeð. Á heimasíðu Steypustöðvarinnar má finna allar vörurnar ásamt hugmyndum að útfærslum. Svo er alveg þess virði að leita hugmynda á internetinu en þar koma fremstir í flokki vefirnir pinterest.com og houzz.com. Á báðum þessum síðum má slá inn leitarorð og þá hrynja fram hugmyndir.

Þarf ég að láta hanna innkeyrsluna?

Stutta og hnitmiðaða svarið við þessari spurningu er „já“. Steypustöðin er í samstarfi við hönnunarfyrirtækið Urban Beat sem býður upp á landslagsráðgjöf fyrir afmörkuð garðsvæði. En þar starfa færustu landslagsarkitekar landsins með margra ára reynslu.

Ráðgjöfin kostar kr. 17.900. Innifalið í því er 45 mín ráðgjöf ásamt frágangi og úrvinnslu gagna sem verða til í tímanumÞar má telja þrívíðar útlitsteikningar, málsett grunnmynd ásamt magntölum, efnislista og verðtilboði. Kostnaður við ráðgjöfina gengur upp í efniskaup á hellum og öðrum frá Steypustöðinni.

Smelltu hér til að bóka tíma hjá landslagsarkitekt Steypustöðvarinnar og lesa meira um ráðgjöfina

 

 

Hvað kostar að helluleggja innkeyrsluna?

80/20 reglan á vel við hér en hún er sú að um 80% af kostnaði við að helluleggja er vinnan en hellur eru oftast um 20% af heildarkostnaði. Steypustöðin mælir eindregið með fagaðilum og verktökum sem kunna vel til verka. Því oftast færð þú nákvæmlega það sem þú borgar fyrir þegar mat er lagt á kostnað við vinnuliðinn. Og mundu að þetta er langtímafjárfesting sem á að duga í áratugi.

Algengasta leiðin við að reikna út verð bílaplans er að miða við kostnað per fermetra en verktakar miða yfirleitt tilboðin sín við fjölda fermetra. Hellurnar sjálfar kosta gjarnan milli 7.000 og 11.000 krónur per fermetri en við það bætist ýmis frágangur.

Hér getur þú skoðað helsta úrval Steypustöðvarinnar í hellum en þar getur þú valið yfir 20 tegundir.

Hér á eftir kemur listi með helstu kostnaðarliðum:

– Hellur: kr. 7.000-11.000 p/m2 með vsk.

– Jarðvegsskipti: (Jarðvegur fjarlægður og grús komið fyrir, 60-80 cm þykkt): kr. 14.000 – 19.000 p/m2 með vsk.

– Vinna við hellulagningu: (Þjöppun grúsar, sléttun sands, þjöppun, lagning, sögun, kantfrágangur og söndun í fúgur): kr. 14.000-18.000  p/m2 með vsk.

= Alls: kr. 25.000 – 48.000 p/m2 með vsk. (allt eftir hversu mikil jarðvegsskipti þarf)

Nokkur dæmi um grunnkostnað án snjóbræðslu, kantsteina, hleðslusteina og annars frágangs:

  1. 50 m2 innkeyrsla: 1,5-2,0 M með vsk.
  2. 100 m2 innkeyrsla: kr. 3,0-4,0 M með vsk.
  3. 150 m2 innkeyrsla: kr. 4,5-5,5 M með vsk.

Nú er allt orðið voða fínt! Hvað svo?

Það gleymist stundum að allt sem þarf að standa úti ársins hring í íslensku veðri þarf að fá ást og umhyggju til að viðhalda fegurð. Það er ekkert öðruvísi með bílaplanið og aðkomuna. Hellur Steypustöðvarinnar er sérstyrktar með granítsandi, sem gefur þeim harðara og slitsterkara yfirborð. Vindurinn sér þó um, með tímanum, að feykja sandi upp úr fúgum en þá skapast pláss fyrir mold og önnur lífræn efni sem mynda jarðveg fyrir mosa og gróður. Þess vegna er nauðsynlegt að vinna sandinn vel ofan í fúgurnar eftir að hellurnar eru lagðar. Ef fúgusandur er notaður er vel þess virði að fara nokkrum sinnum yfir planið til að vinna sandinn ofan í fúgurnar og jafnvel víbra á milli. Þessi sérstaki sandur er þeim eiginleikum gæddur að kornin læsast saman og situr hann því betur í hellulögninni. En hvaða lausn sem notuð er, þá þarf að þrífa og viðhalda með reglulegu millibili. Mögulega þarf að endurnýja fúgurnar á 3-7 ára fresti með því að fjarlægja úr þeim jarðveg með háþrýstidælu og vinna svo nýjan sand ofan í þær.

Nánari upplýsingar um hellusand og fúgusand færð þú hér

Að lokum! Eru hellur bestar?

Það eru sem betur fer til fleiri lausnir en ein fyrir bílaplanið. Steypt bílaplan og mynstursteypa er eitt af vinsælum valkostum með marga kosti. Steypustöðin er í samstarfi við fjölda múrara sem geta útbúið mynstruð eða slípuð plön. Það eru þó ákveðnir kostir við hellurnar á tímum þegar umhverfismál skipta meira og meira máli. Hellur má hæglega endurnýta ef af einhverjum ástæðum þarf að fjarlægja þær. Það er auðvelt að gera við hellulögn eftir viðgerð eða vegna viðhalds á lögnum neðanjarðar. Að lokum munu hellur spila lykilhlutverk á næstu árum þegar krafan um umhverfisvæn gegndræp yfirborð verður almennari. Við hvetjum þig til að skoða vel úrvalið á www.steypustodin.is og leita eftir ráðleggingum sölumanna.

Sterkasta og Besta deildin

Steypustöðin og Íslenskur Toppfótbolti skrifuðu í dag undir samning þess efnis að Steypustöðin verði aðalstyrktaraðili Bestu deildar karla og kvenna í knattspyrnu til næstu þriggja ára. Deildin verður  með nýjum áherslum þar sem efstu deildirnar fá nýtt nafn og nýja ásýnd undir sínu eigin merki Besta deildin. Nýja vörumerkið er byggt á merki sem grafið var í fyrsta bikar Íslandsmótsins frá árinu 1912 og hefur sterka tengingu við sögu Íslandsmótsins þar sem keppt var um titilinn besta knattspyrnufélag Íslands.

Um tímamótasamning er að ræða í tengslum við styrktaraðila deildarinnar og þar sem deildarsamtökin semja beint við aðila án milligöngu Knattspyrnusambands Íslands.

Það eru nokkrir mánuðir síðan við byrjuðum að skoða þetta og okkur langaði mikið að taka þátt. Við slógum til og ætlum okkur að taka virkan þátt í deildinni næstu árin. Það er spennandi uppbygging í vændum hjá efstu deild karla og kvenna í knattspyrnu með nýjum áherslum sem mun efla íslenska knattspyrnu til muna“ segir Björn Ingi Victorsson, forstjóri Steypustöðvarinnar.

Hér má sjá myndband frá deginum í Bæjarbíói.

Skrifað var undir styrktarsamninginn á blaðamannafundi og kynningu á Bestu deildinni í Bæjarbíó í dag.

Það er frábært að fá stærsta og sterkasta framleiðanda af steypu og tengdum afurðum með okkur í þessa vegferð. Steypustöðin er fyrirtæki með langa, góða og merkilega sögu og trausta ímynd. Það er okkur mjög mikilvægt að hafa svo sterkan bakhjarl sem hjálpa okkur að taka þessa deild upp á næsta stig. Það er mikil spenna fyrir samstarfinu og þetta mun koma sér mjög vel fyrir Steypustöðina og félögin.“ Segir Birgir Jóhannsson framkvæmdastjóri Íslensks Toppfótbolta.

Besta deildin fer af stað þann 18. Apríl í karlaflokki og þann 26. apríl í kvennaflokki.

Við erum einstaklega ánægð með að tengja okkur við sterkustu og bestu deildir landsins.  Steypustöðin er hér að styðja við bakið á íslenskri knattspyrnu karla og kvenna. Við höfum verið að styrkja íþróttahreyfinguna með ýmsu móti en fáum nú tækifæri til að taka þátt með enn meiri vigt.  Allar íþróttir hafa mikið forvarnargildi og íslenski fótboltinn er stór hluti af samfélaginu sem við búum í með flesta iðkendur og fylgjendur. Það er stefna okkar hjá Steypustöðinni að sýna í verki samfélagslega ábyrgð og m.a. styðja við hreyfingu af þessu tagi“ Segir Björn Ingi að lokum.

Hér að neðan er kynningarmyndband fyrir Bestu deildina

Söluskrifstofa flytur tímabundið

Söludeild og skrifstofa Steypustöðvarinnar flytur tímabundið vegna framkvæmda að Fosshálsi 17-25 beint á móti Ölgerðinni.

Smelltu hér fyrir Google maps staðsetningu

Vegna framkvæmda og yfirhalningu á skrifstofunum okkar að Malarhöfða 10 flytjum við tímabundið og bjóðum viðskiptavini velkomna til okkar á nýju staðsetninguna. Allir sölufulltrúar fyrir Steypu, hellur, garðlausnir, flot og einingar verða staðsettir á tímabundnda staðnum.

 

Steypustöðin er Framúrskarandi fyrirtæki 2021

Steypustöðin hlaut nafnbótina framúrskarandi fyrirtæki 2021. Þetta er þriðja árið í röð sem Steypustöðin tilheyrir þessum sterka hóp af íslenskum fyrirtækjum.

„Það að vera framúrskarandi fyrirtæki er fyrst og fremst viðurkenning á þeirri miklu vinnu sem allir starfsmenn Steypustöðvarinnar leggja á sig alla daga fyrir viðskiptavini okkar og fyrirtækið. Við getum ekki annað en verið stolt af þessari viðurkenningu“ segir Björn Ingi Victorsson forstjóri Steypustöðvarinnar.

„Fyrirtækið er 75 ára gamalt, með framúrskarandi starfsfólk og sterka eiginfjárstöðu. Ég held að það sé grunnurinn að því að gera fyrirtækið að fyrirmyndarfyriræki,“ segir Björn Ingi að lokum.

 

Hvað er framúrskarandi fyrirtæki?

Framúrskarandi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að vera stöðug fyrirtæki sem byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag allra.
Til þess að teljast framúrskarandi þarf Steypustöðin að uppfylla ströng skilyrði sem eru listuð hér að neðan.
  • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
  • Ársreikningi skal skilað á réttum tíma lögum samkvæmt
  • Hefur skilað ársreikningi til RSK síðustu þrjú ár
  • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo
  • Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár
  • Framkvæmdarstjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) jákvæður síðustu þrjú ár
  • Ársniðurstaða jákvæð síðustu þrjú ár
  • Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár
  • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú ár

Steypustöðin hluti af grænni byggð

Steypustöðin gerðist á dögunum aðili að samtökunum Grænni byggð. Grænni byggð (áður Vistbyggðarráð) er samstarfsvettvangur fyrirtækja og stofnanna um vistvæna þróun byggðar.

Þátttaka í slíkum samtökum er mikilvæg enda er sjálfbærni og umhverfisvernd eitt stærsta verkefni samfélagsins í dag. Áhersla Steypustöðvarinnar er að sýna í verki að við ætlum að vera fremst í þróun og nýjungum á umhverfisvænum lausnum í byggingariðnaði.

Hlutverk Grænni byggðar er að veita hvatningu og fræðslu um sjálfbæra þróun byggðar með það að markmiði að draga úr umhverfisáhrifum af mannvirkjagerð, rekstri mannvirkja og niðurrifi þeirra.

Markmið íslenskra stjórnvalda um sjálfbærni í mannvirkjagerð eru:

  • Að stuðla að endingu og hagkvæmni mannvirkja, m.a. með því að tryggja að þau séu hönnuð þannig og byggð að þau henti íslenskum aðstæðum.
  • Að stuðla að vernd umhverfis með því að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi við hönnun og gerð mannvirkja.
  • Að tryggja aðgengi fyrir alla.
  • Að stuðla að góðri orkunýtingu við rekstur bygginga.

 

Myndband: Ein stærsta steypa Íslandssögunnar

Ein stærsta steypuframkvæmd Íslandssögunnar fór fram á dögunum í nýju hátæknisetri Alvotech í Vatnsmýrinni. Hafist var handa kl 05:30 að morgni 6. júlí. Áætlanir gerðu ráð fyrir að framkvæmdin tæki um 24 klst en verkefnið tók á endanum 18 klukkustundir.

Kvöldfréttatími RÚV var í beinni á staðnum og spjallaði við Björn Inga Victorsson forstjóra

Hægt er að skoða innslagið á RÚV með því að smella hér.

Nokkrar staðreyndir um framkvæmdina.

Hve mikil steypa fór í plötuna? 1984 rúmmetrar

Hvað tók langan tíma að steypa hana? 18 klukkustundir

Hversu margar steypubílaferðir voru farnar? Um 300 steypubílaferðir

Hve margir tóku þátt í verkefninu (starfsmenn)? Um 35 manns frá steypustöðinni og líklega um 20 frá framkvæmdaaðilum.

Hvað er platan stór? 3250 fermetrar

Hvað er platan þykk? 60cm

Í plötuna voru notaðir snjallnemar sem fylgist með framgangi steypunnar í rauntíma.

Nánari upplýsingar um snjallnemana má sjá hér: Snjallsteypa