• Stofnun

  Steypustöðin hóf starfsemi árið 1947 og var frumkvöðull í Evrópu í því að framleiða steypu úr steypubifreiðum og varðaði þannig brautina í mannvirkjagerð á Íslandi á mesta uppgangstíma Íslandssögunnar eftir lok síðari heimstyrjaldar.

 • Steypa

  Meginstarfsemi Steypustöðvarinnar er framleiðsla á blautsteypu, þar sem mikil áhersla er lögð á gæðamál og öll íblöndunar- og fylliefni sem notuð eru í steinsteypuna eru samkvæmt kröfum byggingareglugerðar. Stöðugt er unnið að vöruþróun og innleiðingu nýjunga í framleiðslu. Í raun má segja að blautsteypa sem framleidd er í dag sé hátæknivara sem verður til með tölvustýrðum framleiðsluferlum sem hefjast í steypustöð og enda með dælingu úr steypubíl á byggingarstað. Félagið rekur eigin rannsóknarstofu þar sem stöðugt er fylgst með gæðum allra ferla framleiðslunnar.

 • Hellur, flot og múr

  Auk framleiðslu á blautsteypu eru framleiddar hellur og allt sem því tilheyrir í fullkominni helluverksmiðju við Álfhellu í Hafnafirði og félagið rekur múrverslun á Malarhöfða þar sem meðal annars eru seld hágæða múrefni sem félagið flytur inn. Steypustöðin býður einnig upp á þjónustu flotbíla sem sinna þjónustu við nýbyggingar og endurbætur um allt land með ílagnarefni í gólf af margvíslegum toga.

 • Forsteyptar einingar

  Með kaupum Steypustöðvarinnar á Loftorku Borganesi árið 2016 útvíkkaði Steypustöðin þjónustunet sitt við sína viðskiptavini umtalsvert í einingum, holplötum, Filigranplötum og steinsteyptum rörum. Loftorka Borgarnes er eins og Steypustöðin rótgróið fyrirtæki, sem stofnað var 1962 og hefur í gegnum árin þróast úr því að vera þjónustuaðili með loftpressur, sem nafn þess er dregið af, upp í það að vera ein öflugasta einingaverksmiðja landsins í steyptum einingum og rörum. Í dag er starfsemin í rúmlega 12.000 fermetra húsnæði.

 • Námuvinnslur

  Árið 2018 keypti Steypustöðin og sameinaði félögin Alexander Ólafsson og Tak-Malbik sem stofnuð voru á 8. áratug síðustu aldar. Sameinað félag býr yfir miklum og öflugum vélakosti til efnisvinnslu og ekki síst reynslumiklum mannauði með þekkingu og reynslu í efnisvinnslu. Námur Steypustöðvarinnar - Vatnskarðsnáman og Hólabrúarnáman - eru mikilvægir birgjar í steinefnum fyrir verklegar framkvæmdir á landinu ásamt því að framleiða fyrir Vegagerðina og sveitarfélög. Námurnar leggja ríka áherslu á að halda áfram því þróunarstarfi hefur átt sér stað við endurvinnslu úrgangsefna, bæði á malbiki og steinsteypu.

 • Staðsetning

  Höfuðstöðvar Steypustöðvarinnar eru á Malarhöfða. Þar eru skrifstofur og stærsta steypustöð félagsins. Steypustöðin er einnig með steypustöðvar á Selfossi, í Vík í Mýrdal, Helguvík, Hafnafirði og Borgarnesi. Þjónustugeta félagsins spannar yfir stórt landssvæði og félagið getur þjónað stórum hluta landsmanna þegar kemur að steypu, hellum, múrvörum og einingum og öllu sem viðkemur burðarvirkjum í mannvirkjagerð.

 • Steinsteypuverðlaun

  Steypustöðin hefur unnið til margra verðlauna á sínu sviði og þar má nefna Steinsteypuverðlaunin veitt hafa verið fimm sinnum síðastliðin ár. Þar hefur Steypustöðin hlotið verðlaun fyrir verkefnin Bláa Lónið Retreat, Endurgerð Nýja Bíós og Göngubrýr yfir Njarðargötu og Hringbraut.

 • Sterkari og snjallari dreifing

  Allar bifreiðar og dælur Steypustöðvarinnar eru tengdar snjallkerfi með GPS-búnaði sem reiknar út vegalengdir, tíma, eldsneytisnotkun, kolefnislosun og aðrar gagnlegar upplýsingar. Snjallkerfið er síðan útbúið nákvæmum afhendingaráætlunum sem sendir SMS-skilaboð til viðskiptavina þegar steypubíllinn leggur af stað, ásamt tæknilegum upplýsingum um blöndun steypunnar.

 • Framleiðslugeta

  Framleiðslugeta Steypustöðvarinnar er rúmlega 600 m3 á klukkustund. Starfræktar eru sex fastar og tvær færanlegar steypustöðvar sem tryggja aukinn sveigjanleika og hagræðingu fyrir stærri verkefni.

  Steypustöðvarnar (m3 á klst.):
  Reykjavík (90)
  Hafnarfjörður (90)
  Helguvík (90)
  Selfoss (80)
  Borgarnes (80)
  Vík (30)
  Tvær færanlegar steypustöðvar (150)