Viðskiptaskilmálar

ALMENNIR VIÐSKIPTASKILMÁLAR STEYPUSTÖÐVARINNAR EHF.

 • Inngangur
  • Hér á eftir fara almennir viðskiptaskilmálar Steypustöðvarinnar sem gilda um viðskipta- og samningskjör félagsins og dótturfélaga þess á hverjum tíma fyrir sig.
  • Steypustöðin áskilur sér einhliða rétt til að breyta viðskiptaskilmálum þessum án fyrirvara.
  • Viðskiptaskilmálar þessir gilda frá og með 1. janúar 2020 og með þeim falla allir eldri skilmálar úr gildi.

 

 • Gildissvið skilmálanna
  • Undir viðskiptaskilmála þessa falla öll viðskipti og samningar Steypustöðvarinnar og dótturfélaga, þar á meðal tilboð, nema um annað sé samið með skriflegum hætti.
  • Viðskiptaskilmálar þessir eru ófrávíkjanlegir og gilda um öll þau atriði sem fram í þeim koma. Eingöngu er heimilt að víkja frá skilmálunum með skriflegum og undirrituðum samningi milli aðila. Frávik frá viðskiptaskilmálum teljast ekki samþykkt af hálfu Steypustöðvarinnar nema undirritað samþykki Steypustöðvarinnar liggi fyrir.
  • Um kaup einstaklinga utan atvinnurekstrar, neytenda, á hvers kyns vöru og/eða þjónustu gilda lög um neytendakaup nr. 48/2003 og lög um þjónustukaup nr. 42/2000, ef ákvæði laganna eru neytendum hagstæðari en fram kemur í viðskiptaskilmálum þessum.
  • Lög um lausafjárkaup nr. 50/2000 gilda almennt um kaup á vörum af Steypustöðinni, þar sem ákvæðum skilmála þessara, samningi eða viðskiptavenju milli aðila sleppir.

 

 • Verð og greiðslukjör
  • Grunnverð er það verð sem er uppgefið samkvæmt gjaldskrá félagsins eða í tilboði án afsláttar og miðast við staðgreiðslu. Virðisaukaskattur er innifalinn í uppgefnu verði nema annað sé sérstaklega tekið fram.
  • Steypustöðin áskilur sér rétt til verðbreytinga án fyrirvara með hliðsjón af gengis- og verðlagsbreytingum á hverjum tíma. Afslættir, hvort sem um staðgreiðslu- eða magnafslátt er að ræða, dragast frá grunnverði án vsk.
  • Þeir viðskiptavinir sem fá senda greiðsluseðla samþykkja að greiða sérstakt greiðsluseðlagjald samkvæmt gjaldskrá Steypustöðvarinnar hverju sinni.

 

 • Tilboð
  • Samningur telst kominn á milli Steypustöðvarinnar og viðskiptavinar þegar hann hefur pantað vöru, t.d í gegnum síma eða tölvupóst, undirritað tilboð, undirritað verksamning eða samningsviðauka, tekið við vöru og/eða greitt fyrir vöru/þjónustu.
  • Í þeim tilvikum sem Steypustöðin gerir tilboð í verk, er tilboðsverð miðað við staðgreiðslu, nema um annað sé samið. Tilboðið gildir í 4 vikur frá tilboðsdegi og telst Steypustöðin óbundin berist samþykki tilboðs eftir þann tíma. Hafni viðskiptavinur tilboði eða samþykki tilboð annars í sama verk og Steypustöðin gerir tilboð í, fellur tilboðið einnig úr gildi.
  • Heimilt er að samþykkja tilboð með bréfpósti til Steypustöðvarinnar sem þarf að hafa borist skrifstofu félagsins með sannanlegum hætti áður en tilboðsfrestur rennur út. Tilboð má jafnframt samþykkja með tölvupósti á almennt netfang Steypustöðvarinnar, steypustodin@steypustodin.is, eða með tölvupósti á tengilið viðskiptavinar hjá Steypustöðinni.

 

 • Verksamningur o.fl.
  • Í kjölfar samþykktar tilboðs er gerður verksamningur þegar verkefni Steypustöðvarinnar felst í framleiðslu og afhendingu forsteyptra eininga, reisingu slíkra eininga, uppsteypu bygginga á verkstað eða vegna annarra verka sem þarfnast vinnuframlags starfsmanna Steypustöðvarinnar á verkstað.
  • Aukaverk teljast öll verk sem ekki falla innan samnings. Slík verk eru háð sérstöku samkomulagi á milli aðila og eru reikningsfærð sérstaklega. Fyrir slíka vinnu skal greitt samkvæmt gjaldskrá Steypustöðvarinnar eins og hún er á hverjum tíma, nema um annað hafi verið samið í samningi.
  • Steypustöðin áskilur sér rétt til þess að ráða undirverktaka. Undirverktakar starfa á ábyrgð Steypustöðvarinnar gagnvart viðskiptavinum og inna af hendi allar þær skyldur sem félagið hefur tekið að sér í tengslum við selda vöru og/eða þjónustu. Flutningsaðilar sem Steypustöðin útvegar viðskiptavinum sínum eru ekki undirverktakar skv. skilmálum þessum.
  • Viðskiptavini er óheimilt að framselja réttindi samkvæmt samningi við Steypustöðina án sérstaks samþykkis Steypustöðvarinnar.

 

 • Viðskiptareikningar
  • Umsóknir um reikningsviðskipti fylgja útlánareglum Steypustöðvarinnar og öðrum skilyrðum sem Steypustöðin setur. Slík viðskipti eru alltaf háð því að viðskiptavinur geti lagt fram fullnægjandi tryggingar fyrir reikningsúttektum.
  • Gjalddagi skuldar í reikningsviðskiptum er síðasti dagur úttektarmánuðar Eindagi skuldar er 10 dögum síðar. Í verksamningum vegna einstakra verka getur verið kveðið á um aðra tilhögun en greinir í ákvæði þessu hvað varðar greiðslutilhögun.
  • Steypustöðin setur meðal annars eftirfarandi skilyrði fyrir reikningsviðskiptum:
 1. a) Að viðkomandi viðskiptavinur eða ábyrgðarmaður fyrir úttektum í reikningsviðskipti sé þinglýstur eigandi fasteignar.
 2. b) Að hvorki viðskiptavinur eða ábyrgðarmaður séu skráðir á vanskilaskrá Creditinfo.
 3. c) Sé viðskiptavinur lögaðili er það skilyrði fyrir reikningsviðskiptum að þau séu tryggð með ábyrgð ábyrgðarmanns sem er þinglýstur eigandi fasteignar og er ekki á vanskilaskrá Creditinfo.
 • Steypustöðin áskilur sér rétt til þess að óska eftir frekari tryggingum en greinir í lið 6.3. hér að ofan t.d. bankaábyrgða, veðtrygginga eða annarra trygginga sem félagið metur fullnægjandi.
 • Steypustöðin áskilur sér rétt til þess að breyta áður ákveðnum afsláttarkjörum viðskiptavina án fyrirvara eða tilkynningar án þess að litið sé á það sem uppsögn viðskipta.

 

 • Úttektarheimildir og úttektaraðilar
  • Þegar viðskiptavinur hefur fengið heimild Steypustöðvarinnar til þess að vera í reikningsviðskiptum við félagið er tekin ákvörðun um upphæð úttektarheimilda viðskiptavinar. Steypustöðin hefur ótakmarkaðan rétt til þess að endurskoða úttektarheimildir viðskiptavinar án tilkynningar eða viðvörunar til viðskiptavinar.
  • Viðskiptavinur í reikningsviðskiptum skal tilkynna Steypustöðinni um þá aðila sem hafa heimild til þess að taka út vöru og/eða þjónustu hjá Steypustöðinni (hér eftir úttektaraðila). Berist ekki slík tilkynning eru allar úttektir á viðskiptareikningi félagsins á ábyrgð viðskiptavinar. Viðskiptavini ber að tilkynna félaginu með sannanlegum hætti ef úttektaraðili hefur ekki lengur heimild til úttekta fyrir hans hönd. Úttektir þeirra aðila sem tilnefndir hafa verið af hálfu viðskiptavinar eru á ábyrgð viðskiptavinar. Ábyrgð á úttektum á viðskiptareikningi viðskiptavinar gegn framvísun beiðna er alltaf á ábyrgð hans. Misnotkun á beiðnabókum viðskiptamanns er að fullu á hans ábyrgð. Ef grunur leikur á að stolnar beiðnir séu í umferð mælir Steypustöðin með að loka fyrir úttektir á viðskiptareikning gegn framvísun beiðna.
 • Eiginleikar vöru og vöruskil
  • Um eiginleika vöru og gæðastaðla sem ætlað er að tryggja þá eiginleika, fer skv. upplýsingum Steypustöðvarinnar á heimasíðu félagsins og byggingarreglugerð þeirri sem í gildi er á hverjum tíma. Á heimasíðu Steypustöðvarinnar, steypustodin.is, má finna ítarlegar upplýsingar um eiginleika vöru og notkunarleiðbeiningar. Það er á ábyrgð viðskiptavinar fylgi hann ekki leiðbeiningum um notkun vöru.
  • Eftirfarandi atriði þarf að uppfylla svo hægt sé að skila vöru:
 1. a) Ef varan er gölluð og ekki unnt að gera við hana. Viðskiptavini ber að gefa Steypustöðinni kost á að lagfæra skemmdir áður en réttur til vöruskila myndast
 2. b) Varan þarf að vera auðsjáanlega ónotuð og óskemmd
 3. c) Einungis er tekið við heilum brettum/stórsekkjum af framleiðsluvöru.
 4. d) Ef ofangreind atriði eru uppfyllt er 30 daga skilafrestur á vöru frá afhendingu nema um annað hafi verið samið.
 • Vöru fæst einungis skilað gegn framvísun reiknings. Sérpantaðri vöru fæst ekki skilað.
 • Hvað varðar skil á steypu er vísað til gjaldskrár Steypustöðvarinnar þar sem fram kemur hvert skilagjald á ónotaðri steypu er.
 • Viðskiptavini ber að kanna hvort kreditreikningur og/eða móttökukvittun sé í samræmi við vöruskil og ber hann ábyrgð á því hafi hann tekið við kreditreikningi eða móttökukvittun sem ekki er rétt. Getur hann ekki krafist leiðréttinga á þeim grundvelli.

 

 • Ábyrgðir, ábyrgðartakmörkun og fyrirvarar
  • Ábyrgð Steypustöðvarinnar á framleiðsluvörum hennar takmarkast við að fyrirtækið afhendir nýja vöru frá verksmiðju í stað þeirrar sem verður að skipta um. Steypustöðin tekur að öðru leyti ekki ábyrgð á kostnaði við viðgerð eða ábyrgð á afleiddu tjóni vegna framleiðsluvara. Eftir að Steypustöðin hefur afhent vöru á umsaminn afhendingarstað samkvæmt beiðni viðskiptavinar ber Steypustöðin enga ábyrgð á því að vara verði fyrir tjóni eða valdi tjóni gagnvart þriðja aðila. Steypustöðin áskilur sér rétt til þess að ganga frá framleiðsluvöru á verkstað við afhendingu, sé enginn til staðar til þess að taka á móti vörunni, þannig að varan valdi ekki tjóni s.s. vegna veðurs. Farið er með slíkar aðgerðir Steypustöðvarinnar sem aukaverk sem greiða ber sérstaklega fyrir skv. gjaldskrá Steypustöðvarinnar.
  • Ábyrgð Steypustöðvarinnar miðar við að viðskiptavinur hafi notað vöruna samkvæmt leiðbeiningum og venjulega notkun. Hafi félagið gefið út lýsingu á notkun vörunnar með skriflegum hætti (leiðbeiningar eða handbækur) er ábyrgð þess háð því að notkun vöru hafi verið í samræmi við þær leiðbeiningar. Það er alfarið á ábyrgð viðskiptavinar fylgi hann ekki leiðbeiningum um notkun vöru. Ábyrgð fellur jafnframt niður þegar:
 1. a) tjón verður vegna rangrar meðferðar, misnotkunar eða slysni.
 2. b) viðgerð eða tilraun til viðgerðar hefur verið gerð af öðrum en starfsmönnum Steypustöðvarinnar eða án samþykkis félagsins.
 3. c)  átt hefur verið við hið selda þannig að skemmd hefur hlotist af.
 • Útfellingar úr sementi og sandi geta átt sér stað á yfirborði steypuvöru. Slíkar útfellingar hafa engin skaðleg áhrif á vöruna og valda því ekki að viðskiptavinur geti krafist afsláttar, skaðabóta eða annarra vanefndaúrræða.
 • Stöðug vöruþróun á sér stað hjá Steypustöðinni og áskilur fyrirtækið sér rétt til að gera breytingar á framleiðslunni fyrirvaralaust. Steypustöðin ábyrgist ekki að halda lager um allar framleiðsluvörur sínar.
 • Framvísa skal sölureikningi til staðfestingar á ábyrgð vegna vöru.
 • Lögð er rík áhersla á að viðskiptavinur skoði vöru við móttöku, þ.e. áður en hún er notuð eða henni skeytt við fasteign, t.a.m. veggeiningar reistar, hellur lagðar eða steypusteinar hlaðnir. Allir gallar á vöru skulu tilkynntir án tafar til Steypustöðvarinnar. Viðskiptavinur getur ekki borið galla á vöru fyrir sig sem hann vissi eða mátti vita um, þegar kaupin voru gerð. Hið sama gildir ef viðskiptavinur hefur fengið í hendur sýnishorn vöru og gallann mátti sjá á sýnishorninu.
 • Ef viðskiptavinur hefur ekki borið fram kvörtun til Steypustöðvarinnar innan árs frá þeim degi er söluvaran er sannarlega afhent, glatar hann rétti sínum til að bera fyrir sig galla síðar. Ef um er að ræða neytendakaup, skv. lögum nr. 48/2003 og viðskiptavinur hefur ekki borið fram kvörtun til Steypustöðvarinnar innan tveggja ára frá þeim degi er söluvaran var sannarlega afhent eða fimm ára sé söluvara byggingarefni sem ætlað er verulega lengri endingartíma en almennt gerist um söluhluti, glatar hann rétti sínum til að bera fyrir sig galla síðar.
 • Verði ágreiningur um fjárhæð reiknings getur viðskiptavinur ekki neitað greiðslu á þeim hluta sem er óumdeildur. Viðskiptavini ber að upplýsa Steypustöðina um hvers konar athugasemdir við reikninga þegar í stað og eigi síðar en 7 dögum eftir útgáfu reiknings.

 

 • Þurfi Steypustöðin að greiða viðskiptavini sínum bætur í tengslum við kaup/sölu á vörum fyrirtækisins getur viðskiptavinur ekki farið fram á greiðslu bóta sem eru hærri en sem nemur kaupverði hins keypta. Steypustöðin tekur ekki ábyrgð á kostnaði við viðgerð eða ábyrgð á afleiddu tjóni. Félagið ber í engum tilvikum ábyrgð á rekstrartapi viðskiptavinar eða öðru óbeinu tjóni hans, þ.m.t. glötuðum ágóða eða ráðgerðum sparnað, hvort sem tjónið kann að vera rakið til galla eða skemmda á hinu keypta eða til annarra ástæðna.

 

 • Valdi viðskiptavinur framleiðslutöfum eða framleiðslustöðvun vegna vanefnda áskilur Steypustöðin sér rétt til þess að krefja viðskiptavin um skaðabætur vegna þess.

 

 • Viðskiptavinir Steypustöðvarinnar eiga ekki rétt til skaðabóta, þegar vanefndir orsakast af óviðráðanlegum atvikum (Force Majeure) svo sem vinnudeilum, styrjöldum, uppreisnum, náttúruhamförum, aðgerðum stjórn-valda á sviði gjaldeyris- og viðskiptamála, viðskiptabönnum, hafnbönnum, almennum samgönguhindrunum, orkuskorti og óviðráðanlegum atvikum í samskiptum við undirverktaka.
 • Allar upplýsingar í þessum skilmálum eru með fyrirvara um innsláttar- og prentvillur.

 

 • Litun á afurðum
  • Grunnverð miðast við ólitaða vöru.
  • Litamunur getur verið sjáanlegur á afurðum Steypustöðvarinnar sem skýrist af því að sama varan er framleidd í mismunandi lotum. Steypustöðin mælir með því að viðskiptavinir blandi afurðum saman á staðnum þ.e.a.s. taki jafnt til skiptis af a.m.k. tveimur til þremur brettum af framleiðsluvöru til að tryggja jafnan lit. Steypustöðin tekur ekki ábyrgð á þeim litamun er kann að verða vegna þessa.

 

 • Afhending vöru
  • Afhending vöru eða yfirfærsla á ráðstöfunarrétt yfir vöru eða öðrum söluhlut fer fram gegn greiðslu söluverðs nema um reikningsviðskipti sé að ræða.
  • Afhending vöru fer fram á afhendingarstað samkvæmt samkomulagi milli Steypustöðvar og viðskiptavinar. Áhættuskipti verða við afhendingu til viðskiptavinar eða til flutningsaðila ef um sendingu er að ræða, nema um annað sé samið sérstaklega. Ef kaupandi vöru vitjar hennar ekki eða veitir henni ekki viðtöku á réttum tíma (afhendingartíma) og það má rekja til viðskiptavinar eða atvika sem hann varða flyst áhættan yfir á viðskiptavin þegar hlutur er honum til ráðstöfunar og vanefnd verður af hans hálfu við það að veita hlutnum ekki viðtöku.
  • Fyrir hvert afhent vörubretti reiknast leigugjald. Er gjaldið endurgreitt þegar vörubretti er skilað til Steypustöðvarinnar að lokinni notkun. Endurgreiðsla er háð því að vörubretti sé í lagi við skil.
  • Fyrir hvern afhentan stórsekk (poka) reiknast leigugjald. Er gjaldið endurgreitt þegar stórsekk er skilað til Steypustöðvarinnar að lokinni notkun. Endurgreiðsla er háð því að stórsekkur sé í lagi við skil.
  • Viðskiptavinur ber ávallt allan kostnað af sendingu vöru, nema um annað sé samið sérstaklega. Grunnverð á sérsteyptum afurðum innifelur ekki akstur nema um annað sé samið.
  • Flutningur á afurðum út á landsbyggðina fer í gegnum flutningsaðila sem Steypustöðin er í samstarfi við en vörur eru keyrðar til viðskiptavinar af hendi Steypustöðvarinnar reynist það hagstæðara. Steypustöðin vátryggir ekki vöru í flutningum en óski viðskiptavinur eftir því að vara verði vátryggð í flutningum ber honum sjálfum að annast vátrygginguna.
  • Ökutæki Steypustöðvarinnar sem notuð eru við dreifingu á afurðum eru þung og plássfrek farartæki. Viðskiptavinir eru beðnir um að taka mið af því á afhendingarstað þegar afurðin er afhent. Steypustöðin ber enga ábyrgð á þeim aðstæðum sem upp kunna að koma og valda því að ekki er hægt að afferma vörur við afhendingu.
  • Viðskiptavinur ber ábyrgð á og annast losun flutningabifreiða sem flytja framleiðslueiningar á byggingarstað nema um annað sé samið í verksamningi milli aðila.
  • Viðskiptavinur getur ekki beitt vanefndaúrræðum af nokkru tagi gagnvart Steypustöðinni ef afhending steypu, forsteyptra eininga eða annarra söluvara dregst, af ástæðum sem félagið getur ekki stýrt. Undir þetta ákvæði falla tapaðar vinnustundir, ef bíða þarf eftir steypu, forsteyptum einingum eða öðrum söluvörum.

 

 • Vanskil og innheimtukostnaður
  • Greiði viðskiptavinur ekki skuld samkvæmt útgefnum reikningi í síðasta lagi á eindaga reiknings, reiknast dráttarvextir skv. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá gjalddaga hvers reiknings fyrir sig.

   Falli skuld í eindaga fer hún í innheimtuferli Steypustöðvarinnar með auknum kostnaði fyrir viðskiptavin. Kostnaður við innheimtuviðvörun og milli-innheimtubréf (ef við á) er skv. innheimtulögum nr. 95/2008 og reglugerða sem settar eru samkvæmt lögunum um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar.

   Steypustöðin áskilur sér rétt til að senda rafræna reikninga og rafræn innheimtuskjöl, m.a. en ekki tæmandi, innheimtuviðvörun á netfang viðskiptavina. Auk þess er áskilin réttur til skráningar á vanskilaskrá 40 dögum eftir eindaga ef til vanskila kemur.

   Steypustöðin hefur heimild til þess að hefja löginnheimtu á skuld viðskiptamanns í kjölfar þess að innheimtuviðvörun hefur verið send viðskiptavini skv. 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008.

   Steypustöðinni er heimilt að stöðva fyrirvaralaust hönnunarvinnu, framleiðslu og/eða afhendingu sem samið hefur verið um í áföngum, hafi greiðsla ekki borist vegna fyrri afhendingar. Stöðvun afhendingar og/eða framleiðslu er heimil fram að þeim tíma sem gjaldfallnar greiðslur hafa verið inntar af hendi eða lagðar fram fullnægjandi tryggingar að mati Steypustöðvarinnar.

   Steypustöðin áskilur sér rétt, verði vanskil á greiðslu reikninga, að bakfæra alla áunna afslætti, skv. samþykktum tilboðum, verksamningum eða úttektarnótum, sem viðskiptavinur hefur fengið og hækka skuldbindingar viðskiptavinar, á viðskiptareikningi hans hjá Steypustöðinni um samsvarandi fjárhæð.

 

 • Ábyrgðarmenn
  • Ábyrgðarmenn sem undirrita ábyrgðaryfirlýsingu, ábyrgjast að fullu skuld viðkomandi viðskiptavinar/aðalskuldara, sem sína eigin. Séu ábyrgðarmenn fleiri en einn, er um að ræða ábyrgð in solidum en ábyrgist þá hver ábyrgðarmaður um sig fulla greiðslu skuldarinnar gagnvart Steypustöðinni. Um ábyrgðarmenn gilda lög nr. 32/2009 og eru allir ábyrgðarmenn sérstaklega hvattir til að kynna sér lögin.
  • Öllum greiðslum inn á skuld viðskiptavina er fyrst ráðstafað inn á þann hluta sem ekki er tryggður með ábyrgð.
  • Ef breytingar verða á rekstri fyrirtækja eða lögaðila sem eru í viðskiptum við Steypustöðina, svo sem ef fyrirækið er selt, sameinað eða breytt með öðrum hætti hvílir alfarið á ábyrgð viðskiptavinar að tilkynna Steypustöðinni með sannanlegum hætti um breyttar forsendur viðskiptanna.

 

 • Söluveð, eignarréttarfyrirvari
  • Öll afgreidd vara er eign Steypustöðvarinnar þar til fullnaðargreiðsla hefur átt sér stað. Steypustöðin selur vörur sínar með eignarréttarfyrirvara skv. 42. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Ber viðskiptavinum því að fara vel með hina afhentu vöru þangað til fullnaðargreiðsla hefur átt sér stað.
  • Viðskiptavinur veitir Steypustöðinni söluveð í keyptri vöru hjá félaginu, skv. G-kafla laga um samningsveð nr. 75/1997. Veðrétturinn nær til allra hluta sem tilgreindir eru í reikningi eða tilboði/verksamningi, þar til samningsverð/reikningur er greiddur að fullu ásamt vöxtum og kostnaði.
  • Afgreiddar söluvörur Steypustöðvarinnar er ekki heimilt að selja né veðsetja án skriflegs samþykkis Steypustöðvarinnar. Ef vanskil verða á greiðslu krafna sem veðréttur nær til hefur Steypustöðin heimild til þess að leita fullnustu í umræddum munum.

 

 • Lögsaga og varnarþing
  • Um tilboð Steypustöðvarinnar, samninga milli Steypustöðvar og viðskiptavina, skilmála þessa og önnur viðskipti fer skv. íslenskum lögum.
  • Komi til málaferla eða lögfræðiinnheimtu vegna viðskipta félagsins og viðskiptavinar þess skal reka slík mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.