Hvernig verður steypa sjálfbær?

Á fræðslusvæði Steypustöðvarinnar er fjallað um ýmislegt tengt Steypu skrifaða af sérfræðingum okkar á rannsóknarstofu Steypustöðvarinnar. Greinin fjallar um hvernig Steypa getur orðið sjálfbær, hver munurinn er á sjálfbærri steypu og umhverfisvænni steypu og hvaða þættir þurfa að ganga upp svo að steypa sé sjálfbær kostur í barráttunni við loftlagsmálin.

Hvað er sjálfbærni?


Sjálfbærni byggir á þrem grunnstoðum sem Brundtland nefnd Sameinuðu þjóðanna skilgreindi í skýrslu sinni árið 1987 sem samfélag, náttúra og efnahagur. Í skýrslunni er sjálfbærni skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Sjálfbærni er skilningur á því að samfélag og efnahagur eru hluti af lokuðu kerfi sem getur ekki farið út fyrir þau mörk sem náttúran setur, auðlindir eru takmarkaðar og auðvelt er að raska ferlum náttúrunnar.
Til þess að vara, framleiðsla eða hverskyns rekstur geti talist sjálfbær þarf að uppfylla alla þrjá flokkana, vara getur til dæmis ekki talist sjálfbær þótt að hún sé umhverfisvæn en mjög kostnaðarsöm.

 

Hvers vegna?


Sementsframleiðsla ber ábyrgð á um 8% af þeim gróðurhúsalofttegundum sem mannkynið losar og því er mjög mikilvægt að finna hagkvæmar og sjálfbærar lausnir við framleiðslu á sementi en einnig á þeim vörum sem framleiddar eru og innihalda sement. Sementsframleiðsla og steypuframleiðsla eru að sjálfsögðu nátengd en steypa er næst mest notaða hráefni á jörðinni á eftir vatni. Sement er því vara sem telst ómissandi og ekki er til nein vara sem hægt er að nota til að skipta sementi alfarið út.

Efnahagur og samfélag flestra vestrænna ríkja er mjög háður sementsframleiðslu þar sem byggingargeirinn spilar yfirleitt mjög stórt hlutverk í keðju hagkerfisins, bæði beint með störfum í byggingariðnaði en einnig eru afleidd störf gríðarlega mörg og fjölbreytt.

Sements og steypuframleiðsla getur haft mikil áhrif á getu samfélagsins til þess að uppfylla Parísarsáttmálann en þar er stefnan sett á að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C. Til þess að ná þessu markmiði þarf að draga úr útblæstri á gróðurhúsalofttegundum. Einnig getur sements og steypuframleiðsla spilað stóran þátt fyrir Ísland til að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

 

Hvernig gerum við steypu sjálfbæra?


En hvernig er hægt að gera steypu sjálfbæra, nokkrar leiðir eru færar til þess að minnka kolefnisfótspor steypu, gera hana hagkvæmari og einnig til að gera hana betri fyrir samfélagið.

Umhverfisáhrif

 • 1. Einfaldasta leiðin er einfaldlega að nota minna sement við steypuframleiðslu. Þetta er skref sem þarf að taka við hönnun á mannvirkjum en oft er fyrirskrifað hversu mikið magn sements á að nota í byggingar og er það í mörgum tilfellum mun meira en þörf er á.
 • 2. Einnig er hægt að skipta út hluta sements fyrir íauka eins og til dæmis flugösku, basaltmélu, brennt gjall (GGBS) og fleira sem hefur lægra kolefnisspor en sement.
 • 3. Önnur leið, sem þó getur farið saman með fyrrnefndum aðferðum er að nota steypu sem endist lengur. Við það lengist líftími bygginga og því þarf á endanum að nota minni steypu en ella. 4.
 • 4. Hægt er að nota endurunnin efni við steypuframleiðslu og hefur Steypustöðin til dæmis notast við endurvinnsluvatn í framleiðslu sína um árabil. Einnig er hægt að nota steypu sem hefur verið brotin niður og hörpuð í réttar stærðir í stað fyrir hefðbundin steinefni.
 • 5. Að lokum er svo hægt að minnka losun við framleiðsluna sjálfa. Er þá til dæmis hægt að nota vélar og tæki sem menga minna, hrærivélar sem þurfa minni orku og minnka úrgang frá framleiðslu.

 

Samfélagsleg áhrif

 • 1. Hanna byggingar og mannvirki sem hægt er að endurnýja seinna meir.
 • 2. Reisa byggingar sem hafa lengri líftíma, ein bygging sem stendur í 50 ár veldur töluvert minni mengun en tvær byggingar sem standa í 25 ár.
 • 3. Fallegar byggingar setja mark sitt á umhverfið og geta haft góð samfélagsleg áhrif.

 

Efnahagsleg áhrif

 • 1. Gera þarf kostnaðargreiningu fyrir allan líftíma byggingarinnar. Hvað kostar að reisa mannvirkið, reka það og að lokum rífa það.

 

Vöruval sem minnkar kolefnisspor


Það er að mörgu að huga þegar kemur að því að gera steypu umhverfisvænni og sjálfbærari. Steypustöðin hefur tekið virkan þátt í þessu verkefni sem á við um alla sem koma að byggingum mannvirkja.

 

Í dag býður Steypustöðin upp á þrjár lausnir til að draga úr kolefnisspori steypu strax í dag:

 • 1. Steypu með 30% minna kolefnisspori (Grænsterk steypa)
 • 2. Snjallsteypu sem dregur úr sementsnotkun (Snjallnemar)
 • 3. Endurvinnsla á steypu

 

Við getum tekið þá ákvörðun strax í dag að velja umhverfisvænni kostinn hjá Steypustöðinni.

Í stærri verkefnum erum við með sérfræðinga á okkar snærum svo virðiskeðjan frá byggingaraðilum til arkitekta, verkfræðinga og verktaka verði eins sjálfbær og kostur er. Þannig náum við í sameiningu enn lengra í átt að því að byggja sjálfbært úr steinsteypu.

Hér getur þú nálgast Samfélagsskýrslu Steypustöðvarinnar 2021 til að skoða áherslur okkar og markmið í sjálfbærnimálum.

Höfundur greinar er Andri Jón Sigurbjörnsson jarðfræðingur og sérfræðingur á rannsóknarstofu Steypustöðvarinnar.