10 grunnreglur við hellulögn

Vel hellulögð innkeyrsla eða garður gerir gæfumuninn þegar litið er til útlits og endingar til lengri tíma. Einn af kostum þess að nota hellur er að þær þarfnast lítils viðhalds og eru í senn frábær lausn sem á að endast í áraraðir. En þegar við ráðumst í þetta verkefni með tilheyrandi fjárfestingu viljum við einmitt að þetta endist í áraraðir og þá þarf að fara rétt að.

Eftir áralanga reynslu í framleiðslu á hellum, kantsteinum og veggjum höfum við séð ýmislegt. Ef rangt er farið að með undirlagið geta hellurnar orðið ójafnar, þær brotnað, jarðvegur byrjar að síga og þær geta losnað. Sumt sést ekki frá fyrsta degi hellulagnar og allt virðist líta vel út, en með tímanum byrja þessar undirstöður að gefa sig ef ekki er rétt farið að.

Til þess að tryggja endingargóða hellulögn úr steinsteyptum hellum erum við hér með 10 grunnreglur við hellulögn ásamt skýringarmyndum.


 

1. Fylgja skal öllum eftirfarandi reglum um niðurlögn

Til að tryggja endingargóða hellulögn úr steinsteyptum hellum þarf nægjanlega þykkt og þjappað, frostfrítt burðarlag og 3 – 5 cm laust sandlag (mesta kornastærð 8 mm) til að leggja hellurnar í.

Hér finnur þú hlekk á:
Frostfrítt burðarlag
Laust sandlag – Brotinn Sandur 0-8mm
Laust sandlag – Hellusandur 0-8mm

 

2. Hellulögn og burðarlag þurfa að hafa að minnsta kosti 2,5 % halla

Sami vatnshalli þarf að vera á burðarlagi og á hellulögninni. Gætið þess að vatnshallinn sé a.m.k. 2,5% og frávik frá sléttu yfirborði sé ekki meira en 1 cm á 4 m.

 

3. Slétt og rétt uppbyggt burðarlag úr frostfríu efni

Þjappið burðarlagið og lagfærið yfirborðið þannig að það sé slétt og í réttri hæð. Yfirborð burðarlagsins þarf að vera svo þétt í sér að lausa sandlagið, undirlagið sem hellurnar eru lagðar í, sáldrist ekki niður í það. Snjóbræðsla í hellulögn á að vera í burðarlaginu, 15 cm fyrir neðan yfirborð hellulagnar.

 

4. Laust undirlag

Þegar burðarlagið er tilbúið, skal leggja undirlagið.
– Undirlagið verður að vera 3 – 5 cm þykkt eftir þjöppun. Hellur og steina skal leggja á þetta óþjappaða, útdregna sandlag. Þetta gildir fyrir allar þykktir af steinum og hellum.
– Undirlagið verður að passa við burðarlagið og fúguefnið sem er notað. Það má hvorki sáldrast niður í burðarlagið né fúguefnið niður í undirlagið.

– Undirlagið, þ.e. lausa sandlagið, þjappast eftir að hellur/ steinar hafa verið lagðar/ir.
– Nauðsynlegt er að vatn geti lekið niður úr undirlaginu. Einnig að fínna efni geti ekki gengið ofan í grófara efni í laginu fyrir neðan, burðargeta sé tryggð og þjöppun sé nægjanleg.

 

5. Kantur

Gott er að miða við hellurnar/steinana sem á að nota til þess að ákvarða staðsetningu kantsteina. Þú getur skoðað úrval kantsteina hjá Steypustöðinni hér. Það er gert þannig að áður en niðurlögnin hefst eru, með hæfilegu millibili, lagðar hellur/steinar í þá breidd sem á að helluleggja. Sumar tegundir kantsteina þurfa undirstöður og styrkingu úr steinsteypu.

 

6. Skoða skal hellurnar vel áður en þær eru lagðar

Berið saman afhendingarseðil og pöntunarseðil (form, lit, yfirborð, magn o.s.frv.). Hafið samband við Steypustöðina ef ósamræmis gætir áður en hellulögn hefst. Smávægilegar kalkútfellingar geta verið á steininum en þær má auðveldlega hreinsa af með mildri sýrulausn.

 

7. Leggja skal hellurnar með 3-5 mm fúgum og blanda saman úr mismunandi pakkningum

Fjarlægðarrendurnar sem eru á steinunum eiga ekki að ákvarða fúgubreiddina. Fúgan
á milli steinanna á að vera 3 – 5 mm. Færið hellurnar/steinana aðeinstil ef jafna þarf
bilið milli þeirra. Steinsteypa er framleidd úr náttúrulegum efnum, þar af leiðandi getur verið blæbrigðamunur á lit og áferð. Þess vegna þarf að blanda saman hellum/steinum úr mismunandi pakkningum til þess að jafna út hugsanlegan lita-/áferðarmismun. Sagið til hellur / steina, ekki brjóta. Ekki hafa hellur / steina minni en sem nemur hálfri upphaflegri stærð.

 

8. Fúga með sértilgerðum sandi

Fúguefninu, 0-2 mm sem selt er hjá Steypustöðinni í 15 kg. pokum, er sópað ofan
í fúgurnar. Þetta er sérstaklega hannaður fúgusandur fyrir hellulögn og hefur reynst mjög vel. Hann er fáanlegur í gráum og sótgráum lit.

Sótgrá fúga fyrir hellur Grá fúga fyrir hellur

Erfitt er að segja til um hvaða magn þarf á fermetra en ágætis viðmið er að 15kg poki dugi á 3-10 fermetra. Þessi mikli munur fer eftir fjölda fúga sem fylla þarf í. Fyrir minni hellur þarf meira af fúgusandi en þegar um stærri hellur er að ræða.

Nánari upplýsingar um Fúgusandinn má finna hér

Þessi sandur er með stærstu kornastærð 2 mm sem er minni en fúgubreiddin en þó ekki svo fínn að fúguefnið hverfi ofan í undirlagið. Best er að fylla fúgurnar jafnóðum og hellurnar/steinar eru lagðar/ir. Með þessari aðferð komum við í veg fyrir óæskilegan gróður og skrið á lögninni. Ef vitlaust efni er notað í fúgur getur komið smit frá efninu í hellurnar – sem lýsir sér eins og brún sleikja.

 

9. Þjöppun eftir hellulögn og fúgun

Þjappa þarf lögnina og nota þarf þar til gerða plötu sem hlífir yfirborðinu. Umframefni á að fjarlægja áður en þjappað er yfir hellurnar. Mælt er með að nota ekki aflmeiri þjöppu en 120 kg.

 

10. Fylla fúgur endanlega

Eftir að þjappað hefur verið yfir hellulögnina þarf að fylla fúgurnar aftur eftir þjöppun með fúgusandinum. Nauðsynlegt er að fylla þær stöku sinnum með sandi. Það er hluti af reglulegri hreinsun og viðhaldi. Með því að sópa í fúgurnar árlega eftir hellulögn kemur þú í veg fyrir að lífrænn jarðvegur eins og lauf, gras og greinar nái að byggja upp aðstæður fyrir spírandi fræ og þá mun hellulögnin endast ævilangt.