Steypustöðin lækkar kolefnisspor um 65%

Steypustöðin hefur lækkað kolefnisspor rekstursins um 65% milli ára en þar af minnkaði heildarlosun koltvísýringsígilda frá starfseminni um 11%. Kolefnisjöfnun í samvinnu við Landgræðsluna skilaði 54% af þessari hlutfallslegu minnkun.

Markmið ársins 2021 er að lækka heildarlosun koltvísýringsígilda enn frekar ásamt því að auka við mótvægisaðgerðir og þannig kolefnisjafna alla starfsemina. Markmiðið er hluti af stærri sjálfbærniáætlun Steypustöðvarinnar sem nær til fjölmargra þátta innan fyrirtækisins og tekur á umhverfis-, samfélags- og efnahagsþáttum.

Áhersla á sjálfbærni

„Sjálfbærni og umhverfisvernd er stærsta verkefni samfélagsins í dag og við leggjum mikið upp úr því að vera samfélagslega ábyrg“ segir Björn Ingi Victorsson, forstjóri Steypustöðvarinnar.

 

„Sjálfbærni í starfseminni er okkur mikilvæg, ekki aðeins út frá kolefnisspori heldur einnig þau áhrif sem við höfum á samfélagið með jafnrétti, beinum samfélagsstuðningi, lýðheilsu, öryggi starfsmanna og nýsköpun sem stuðlar að sjálfbærri framleiðslu“.

„Okkar áhersla er að sýna í verki hvað við erum að gera. Við ætlum að vera fremst í þróun og nýjungum á umhverfisvænum lausnum í byggingariðnaði. Síðustu ár hefur einnig verið markvisst unnið að rannsóknum á sviði vistvænnar steypu í samstarfi við hráefnisbirgja. Viðskiptavinir okkar geta nú þegar valið umhverfisvæna steypu með allt að 30% minna af kolefnisspori“.

 

Rafrænar mælingar

Á árinu 2019 hófst vinna við að safna saman gögnum um kolefnisspor Steypustöðvarinnar á öllum starfsstöðvum þess í samvinnu við Klappir grænar lausnir. Á árinu 2020 var síðan lokið við að kortleggja stöðuna og áhrif Steypustöðvarinnar á umhverfi sitt. Skráningar á kolefnisspori eru nú með rafrænum hætti og hægt er að fylgjast vel með allri losun.

 

„Samstarfið við Klappir hefur leitt til þess að við höfum góða yfirsýn yfir stöðu umhverfismála hjá okkur. Við búum núna yfir áreiðanlegum upplýsingum sem gagnast okkur í að ná markmiðum okkar um að Steypustöðin sé leiðandi fyrirtæki á Íslandi í sjálfbærum og umhverfisvænum lausnum fyrir byggingariðnaðinn“ segir Björn Ingi að lokum.

 

Sterkari tölfræði