Fimm rafknúin tæki tekin í notkun

 

Á innan við ári hefur Steypustöðin fjárfest í og tekið í notkun fimm nýja og rafknúna vörubíla sem saman standa af þremur steypubílum, steypudælubíl og dráttarbíl. Tveir steypubílanna bættust fyrir fáeinum vikum, en fyrirtækið vinnur hratt að orkuskiptum í flotanum og gerir ráð fyrir að árið 2032 verði 70% tækjaflotans rafknúin að hluta eða öllu leyti.

Fyrr á þessu ári braut Steypustöðin ákveðið blað í sögu byggingariðnaðar hér á landi þegar fyrirtækið tók í notkun fyrsta 100% rafdrifna steypubíllinn á landinu og flutti hann í fyrstu ferð sinni 32 tonn af steypu í nýja Landspítalann við Hringbraut. Síðan þá hefur Steypustöðin bætt við sig tveimur nýjum rafknúnum steypubílum, rafknúnum malarflutningabíl (trailer), auk steypudælubíls þar sem steypudælan sjálf gengur alfarið fyrir rafmagni á verkstað, sem dregur verulega úr hljóðmengun.

Eiga lengstan vinnudaginn

Að sögn Björns Inga Victorssonar, forstjóra Steypustöðvarinnar, ganga rafknúnu steypubílarnir fyrir í daglegri notkun umfram aðra bíla, þeir fari fyrstir út á morgnana og eigi ávallt lengstan vinnudaginn. „Reynslan hingað til hefur farið fram úr væntingum. Drægnin er það góð að aldrei hefur þurft að gera hlé á akstri yfir daginn til að hlaða. Lengsta úthaldið hingað til á sömu hleðslunni eru 12,5 klukkustund“ segir Björn Ingi.

 

Samdráttur í losun

Uppsafnaður sparnaður Steypustöðvarinnar í kaupum á dísilolíu frá því að fyrsti rafknúni þungaflutningabíll fyrirtækisins var tekinn í notkun á árinu 2023 nemur tæpum 27 þúsund lítrum (í Október 2023) og samdráttur í losun koltvísýrings (CO2) telur um 80 þúsund kíló.

Steypustöðin tók snemma þá ákvörðun að taka virkan þátt í skuldbindandi ákvörðunum stjórnvalda í loftslagsmálum með innleiðingu eigin aðgerðaplans sem felur í sér umtalsverðar nýfjárfestingar í grænum lausnum á öllum sviðum starfseminnar til að draga sem mest úr umhverfisáhrifum. Í því verkefni vegur tækjaflotinn þungt enda rekur fyrirtækið hátt í eitt hundrað dísilknúin ökutæki, þar af fjörutíu steypubíla, fjórtán steypudælur, þrettán dráttarbíla, tuttugu hjólaskóflur og nokkrar jarðýtur auk vinnubíla fyrir mannskap.

 

Til mikils að vinna í orkuskiptum

Björn segir að á næstu árum séu fram undan frekari fjárfestingar í nýjum tækjum. „Markmið okkar er að skipta út öllum flotanum á næstu tíu árum. Næstu rafmagnsbílar munu m.a. fara í Helguvík og til Selfoss þar sem nægilegir innviðir eru til staðar á starfsstöðvum okkar.“ Björn Ingi segir að það sem hamli frekari dreifingu annað sé skortur á rafmagni fyrir hleðslustöðvar á steypustöðvum félagsins. Vonandi standi það til bóta á næstu árum þannig að framtíðarplanið geti gengið upp. „Það er til mikils að vinna til að svo geti orðið,“ segir Björn.

 

Í samræmi við grænar kröfur

Auk nýfjárfestinga í grænum ökutækjum hefur Steypustöðin þróað nýjar og umhverfisvænni steyputegundir sem hafa lægra kolefnisspor heldur en hefðbundin steypa. Nýja steypan mætir t.d. kröfum byggingaraðila sem vilja draga sem mest úr losun á öllum stigum mannvirkjagerðar. Björn segir að í þeim framkvæmdum leggi Steypustöðin sitt að mörkum með því að flytja steypuna á verkstað með rafknúnum ökutækjum og með því að dæla steypunni þangað sem hún eigi að fara með rafmagni í stað olíu. „Megnið af tækjum til malarvinnslu eru keyrðar á rafmagni. Næstu verkefni snúa m.a. að því að geta unnið alla námuvinnslu með rafmagni og að geta síðan flutt hráefni þaðan með sama hætti til steypustöðvanna eins og við erum þegar byrjuð á með fyrsta rafknúna malarflutningabílnum.“