Steypustöðin komin með enn fleiri rafknúna steypubíla

Steypustöðin fékk nýlega afhenta þrjá nýja steypuflutningabíla af tegundinni P9G iOntron Sany/Putzmeister sem bæst hafa í flota þriggja annarra sams konar steypubíla sem afhentir voru á síðasta ári. Að auki hefur Steypustöðin staðfest kaup á tveimur rafknúnum ítölskum Dieci Mini Agrie skotbómulyfturum til vörumeðhöndlunar á athafnasvæðum félagsins. Verða þeir afhentir síðar í sumar, þeir fyrstu sinnar tegundar hérlendis. Þá verða alls tíu stór vinnutæki komin í þjónustu Steypustöðvarinnar sem öll eru rafknúin því á síðasta ári tók Steypustöðin einnig í notkun rafknúinn dráttarbíl (trailer) og tengiltvinndælubíl (hybrid) sem dælir steypu á verkstað á 100% rafmagni.

 

Breytt byggingarreglugerð

„Við hófum orkuskiptaverkefnið fyrir alvöru á síðasta ári en áður einnig tekið nokkra rafknúna fólks- og sendibíla í notkun. Við lítum svo á að verkefnið sé mikilvægt framlag okkar til sameiginlegs átaks þjóðarinnar í að draga úr kolefnislosun á Íslandi, en verkefnið er einnig mikilvægt í ljósi nýlegra breytinga á byggingarreglugerð sem felur í sér innleiðingu nýrra ákvæða um lífsferilsgreiningu mannvirkja. Breytingin gerir kleift að leggja mat á og takmarka umhverfisáhrif mannvirkja frá upphafi til enda líftíma þeirra og Steypustöðin er vissulega mikilvægur hlekkur í þeirri virðiskeðju. Þess vegna leggjum við áherslu á að auka jafnt og þétt hlutfall rafknúinna steypuflutningabíla, malarflutningabíla og steypudæla í heildarflota fyrirtækisins. Við gerum okkur einnig vonir um að áður en langt um líður komi á markað rafknúnar hjólaskóflur til notkunar í námum félagsins til að lengja enn meira í þessari mikilvægu virðiskeðju,“ segir Björn Ingi Victorsson forstjóri Steypustöðvarinnar.

 

Mikið dregið úr kaupum á dísilolíu

Björn segir reynslu félagsins af rafknúnum flutningabílunum hafa farið fram úr öllum væntingum. Bílarnir hafi sýnt fram á framúrskarandi drægni og hagkvæmni í rekstri með löngum vinnudögum án þarfar fyrir hleðslu yfir daginn. „Við höfum dregið umtalsvert úr kaupum á dísilolíu á þessu tímabili auk þess sem viðhald bílanna er minna en hinna. Á þessu ári sem rafknúnu steypubílarnir hafa verið notaðir ásamt rafknúna malarflutningabílnum og steypudælunni hefur losun CO2 í rekstrinum minnkað um a.m.k. 170 tonn og er þá ekki meðtalinn sá samdráttur losunar sem hlotist hefur af rafvæðingu ýmissa tækja sem sjá um steinefnavinnsluna í námunum og áður fyrr voru dísilknúin,“ segir Björn Ingi sem kveðst, ásamt samstarfsfólki sínu, staðráðinn í að halda áfram á sömu braut með frekari fjárfestingum í rafknúnum bílum og tækjum í samræmi við umhverfisstefnu félagsins.