Steypustöðin hlýtur verðlaun fyrir Framúrskarandi sjálfbærni 2024

Við hjá Steypustöðinni erum afar stolt af því að hafa hlotið hvatningarverðlaun CreditInfo fyrir framúrskarandi árangur í sjálfbærni árið 2024. Þetta er viðurkenning sem við metum mikils, þar sem hún undirstrikar mikilvægi sjálfbærniaðgerða okkar og markvissa vinnu við að byggja upp sterka framtíð.

Í umsögn dómnefndar kemur fram að Steypustöðin hafi lagt mikla vinnu í að efla sjálfbærnivegferð sína og að fjárfesta í umhverfisvænni lausnum, rafvæðingu og nýjum aðgerðum til þess að draga úr kolefnislosun. Verðlaunin eru unnin í samstarfi við Festu – miðstöð um sjálfbærni.

Verðlaunin hlýtur fyrirtækið fyrir sérstakt framtak sitt við rafvæðingu bílaflota síns. Nú samanstendur rafmagnsfloti fyrirtækisins af 6 rafmagns steypubílum, 1 rafmagns dráttarbíl og hybrid steypudælum, eða 9 tækjum í heildina og stefnan er sett á að 70% flotans verði knúinn á endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2032. Fyrirtækið hefur haldið utan um sparnað í CO2 sem og sparnað í dísilolíu frá tilkomu fyrstu rafmagnssteypubílana Árið 2023 sparaði Steypustöðin um 100,000 kg CO2 frá 3 maí 2023 þegar fyrsti rafmagns steypubíllinn var tekinn í notkun en það samsvarar um 32,000 lítrum í dísilsparnaði. Dísilsparnaður ársins 2024 er nú orðinn rúmir 56,000 lítrar.

Sjálfbærni er ein af grunnstoðum starfseminnar okkar, og við erum þakklát fyrir að fá þessa viðurkenningu sem staðfestingu á þeirri vegferð sem við höfum verið á síðustu ár – vegferð þar sem við leggjum áherslu á að vera umhverfisvænni á öllum stigum ferlisins, allt frá framleiðslu til afhendingar. Steypustöðin hefur verið leiðandi í að þróa sjálfbærar lausnir, til að mynda með kaupum á fyrsta rafmagnssteypubílnum árið 2023, sem ekki aðeins dró úr mengun heldur markaði líka tímamót fyrir byggingargeirann á Íslandi. Í dag hefur flotinn stækkað í níu rafmagnssteypubíla, og kolefnissparnaðurinn af þeim nemur nú um 300.000 kg CO₂.


Mynd 1: Frá verðlaunaafhendingunni ásamt dómnefnd á vegum FESTU – Miðstöð um sjálfbærni og forstjóra Credit Info

 


Vegferðin okkar – 100% STERKARI


Í vegferð okkar að sjálfbærri virðiskeðju er lögð áhersla á alla þætti ferlisins. Við eigum og rekum eigin námur þar sem steinefni eru framleidd fyrir steypuna, og stór hluti tækjanna þar eru knúin á rafmagni. Steinefnin eru síðan flutt í steypustöðvarnar okkar, þar sem við framleiðum steypu sérsniðna að óskum viðskiptavina. Framúrskarandi rannsóknarstofa okkar gerir okkur kleift að þróa steypu með lægra kolefnisspori en hefðbundin steypa, og á næsta ári má vænta frekari breytinga á kolefnisspori steypunnar úr framleiðslu okkar.

Þegar steypan er tilbúin, flytjum við hana á byggingarstað í rafmagnssteypubílum, og á verkstað er henni dælt með hybrid dælum sem nýta rafmagn, sem lágmarkar losun á verkstað. Í framleiðslukerfinu okkar geta viðskiptavinir jafnframt fengið reiknað heildarkolefnisspor verkefnisins – allt frá öflun hráefna til flutnings steypunnar á verkstað – sem nýtist þeim í kolefnisbókhald sitt og til að uppfylla kröfur um sjálfbærnimarkmið verkefna. Samfélagslegur ávinningur eins og vellíðan starfsmanna og hljóðmengun á verkstað spilar líka veigamikið hlutverk í þessu ferli.

Við sjáum það sem okkar hlutverk að starfa í sátt við umhverfi og samfélag og að vera fyrirmynd í sjálfbærnimálum, með áherslu á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum svo við skiljum eftir sterkara samfélag fyrir komandi kynslóðir. Frá fyrstu skrefum til lokaafhendingar er sjálfbærni okkar leiðarljós, og við erum afar þakklát fyrir þessa viðurkenningu. Takk fyrir okkur!