Framtíðarleiðtogar mótaðir hjá Steypustöðinni

 

 

Steypustöðin hefur ráðið tvo stjórnendur sem báðir koma úr röðum fyrirtækisins. Sigríður Björnsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri rekstrar og mannauðs, og Rögnvaldur Andri Halldórsson tekur við stöðu rekstrarstjóra náma Steypustöðvarinnar.

Sirrý tekur við sem Framkvæmdastjóri rekstrar- og mannauðsviðs en hún hefur starfað hjá Steypustöðinni í þrjú ár sem framkvæmdastjóri mannauðs. Sirrý mun stýra rekstri í námum, efnisflutningum, viðhaldi og mannauðsmálum Steypustöðvarinnar.

Sirrý mun bera ábyrgð á að tryggja að öryggis-, gæðastöðlum og sjálfbærni markmiðum félagsins sé framfylgt, hámarka skilvirkni, þróa og innleiða stefnu og knýja áfram vöxt og arðsemi fyrirtækisins auk þess að bera ábyrgð á mannauðsmálum með það að markmiði að byggja upp eftirsóknarverðan vinnustað til framtíðar.

Sirrý er lögfræðingur að mennt og hefur áður sinnt sambærilegum hlutverkum á sínum fyrri vinnustöðum m.a. hjá Icelandair og AVIS.

Rögnvaldur tekur við stöðu sem rekstrarstjóri náma en hann hefur gegnt starfi viðhaldsstjóra síðastliðin fjögur ár hjá Steypustöðinni. Rögnvaldur mun stjórna daglegum rekstri námunnar, tryggja gæði þeirrar vöru sem framleidd er, öryggi starfsmanna, þróun í endurvinnslu og stuðla að innleiðingu sjálfbærnistefnu félagsins.

Rögnvaldur er með meistara gráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík (MPM) og starfaði áður hjá Munck í véla og jarðvinnudeild fyrirtækisins í 3 ár

„Ég bind miklar vonir við þetta teymi sem kemur inn á mjög spennandi tímum þar sem tækifærin eru mörg og krefjandi. Ég er sérstaklega glaður með að við getum í dag fundið fólk innan fyrirtækisins okkar. Það er hlutverk okkar sem stjórnendur að byggja upp nýja stjórnendur sem geta á síðari stigum tekið við keflinu. Þannig náum við að gera fyrirtækið sterkara og sjálfbærara til lengri tíma“ segir Björn Ingi Victorsson forstjóri Steypustöðvarinnar.