Sagan

Steypustöðin ehf.

 

 

Í forystu í 65 ár

Steypustöðin hóf starfsemi árið 1947 og í 65 ára sögu sinni hefur hún þjónað byggingariðnaðinum  í landinu og verið leiðandi aðili í þróun á steinsteypu og  lausnum tengdum steinsteypu. Mannvirki byggð úr steypu frá Steypustöðinni eru um allt höfuðborgarsvæðið og í raun víða um land. Steypustöðin er frumkvöðull í framleiðslu á steypu úr steypubifreiðum í Evrópu og má segja að stofnendur félagsins hafi þar með rutt brautina í mannvirkjagerð á Íslandi á mesta uppgangstíma Íslandssögunnar við lok síðari heimstyrjaldar.

Núverandi fyrirtæki Steypustöðin ehf. er reist á grunni þess félags sem stofnað var árið 1947 með samruna þess og Steinsteypunnar hf. sem stofnuð var árið 2003. Við hrun byggingariðnaðarins árið 2008 varð félagið gjaldþrota, í kjölfar þess stofnaði Íslandsbanki núverandi félag Steypustöðina ehf. og rak það til 1. apríl 2011, þegar núverandi eigandi, Alexander Ólafsson og fjölskylda, keypti félagið.
 

Metnaður

Steypustöðin hefur ávallt lagt mikla áherslu á gæðamál, einungis notuð fylliefni sem framleidd eru í samræmi við gæðakröfur og byggingareglugerðir og  uppfylla  allar kröfur gagnvart steypuframleiðslu. Í dag notar  Steypustöðin landefni til framleiðslu á steypu.

Lögð er áhersla á að tileinka sér tækninýjungar og eru framleiðsluferlar tölvustýrðir sem tryggir stöðug gæði en það er mjög mikilvægur þáttur til að tryggja gæði þeirra mannvirkja sem steypan er notuð í.

Frá upphafi hefur félagið starfrækt eigin rannsóknarstofu þar sem starfa sérfræðingar á sviði steinsteypu og jarðefna og veita þeir viðskiptavinum mikilvæga ráðgjöf við val og samsetningu á steypu til að tryggja hámarksárangur fyrir hvern viðskiptavin. Rannsóknarstofan tekur regluleg sýni úr steypunni skv. byggingareglugerðum.

Árið 2003 hóf  forveri Steypustöðvarinnar, Steinsteypan framleiðslu á hellum og einingum og er sú framleiðsla leiðandi á markaði hvað gæði varðar og hefur komið mjög vel út í öllum rannsóknum og uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til slíkrar framleiðslu. Tækjabúnaður helluverksmiðjunnar er mjög fullkominn og  Steypustöðin er eini framleiðandinn á Íslandi í dag sem getur framleitt tveggja laga hellur.

Steypustöðin rekur einnig múrverslun í húsakynnum sínum að Malarhöfða. Múrverslunin var stofnuð árið 2004 og hefur frá upphafi fyrst og fremst þjónað fagmönnum varðandi allt er snýr að múrverki, bæði efni og áhöld.

Steypustöðin er með samning við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um óháð eftirlit. Gæðaeftirlit Steypustöðvarinnar er því mjög strangt.
 

Starfstöðvar

Steypustöðin rekur í dag 4 steypustöðvar, á Malarhöfða eru skrifstofur og stærsta framleiðslustöð félagsins, í Hafnarfirði er steypustöð og hellu – og einingaverksmiðja, á Selfossi er steypustöð og söluskrifstofa, í Helguvík í Reykjanesbæ  er steypustöð og söluskrifstofa. Framleiðslugeta Steypustöðvarinnar er því mikil og geta er til staðar til að þjóna svæðinu frá Hvítá til Hvítá.